Byrjun

Þá er komið að því að ég setji hér inn mínar hugrenningar og hvernig lífið fer um mig hverju sinni.

Er kvenkyns og lifi góðu og fjölbreyttu lífi, en engin er rós án þyrna.

Femínisti, góð, vill engum illt.

Þoli mjög illa allt sem heitir ofbeldi og verður það rauði þráðurinn í þessum færslum mínum og geri ég það til að hjálpa konum sem lent hafa í ofbeldi eða eru í ofbeldissambandi og hvernig þær geta komist undan þessu hræðilega oki sem hvílir á þeim.

Mun setja inn greinar sem mér finnst merkilegar og geta frætt þær sem lifa í ofbeldissambandi.

Ég kynntist manni sem í fyrstu sýn var maðurinn sem ég trúði ekki að væri til, fyrstu mánuðurnir var ég á bleiku skýi, vá hvað þetta var mikið æði.

Hringt og spurt hvenær og hvar ég var og tók ég því sem umhyggjusemi væri um að ræða og ástin mín vildi vita hvort ég væri í lagi.

En er ég horfi til baka þá var þetta fyrsti vísirinn að hann treysti mér ekki.

Illa talaði hann um fyrrum eiginkonur sínar og ég meðvirknis manneskjan vorkenndi honum að þurfa að lenda í klóm þessara kvenna sem gerðu allt til að eiga skilið höggin sem hann lét þær finna fyrir því að hann var jú að reyna að komast undan þeim. Hmmmmmmmm einkennilegt að fílhraustur einstaklingur þyrfti að nota krafta sína á konum sem voru miklu minni og kraftlausari en hann.

Alveg sama hvað og hverjir reyndu að segja mér að hann væri hættulegur einstaklingur, vildi ekki trúa neinum.

Svo koma að mér, eitt orð og veröldin mín hvarf, fallega lífið mitt varð svart. Hann kunni að velja manneskju sem mundi aldrei svara fyrir sig með höggi á móti heldur kom sjálfsvarnar hjúpurinn yfir mig og reyndi ég að þrauka höggin, hlutina sem flugu í átt að mér, orðin og allt sem fylgir heimilisofbeldi.

Þá vissi hann að hann væri búin að ná tökum á mér, eitt högg og ég í inn í hjúpinn minn.

Árin liðu og alltaf versnaði lífið mitt, starfið fór- ekki gat ég endalaust hringt mig inn veika þegar að ég komst ekki frammúr rúminu vegna verkja, marbletta og meiðsla.

Mætti til læknis og sett í hvíld frá vinnu og var marg spurð hvernig hjónabandið gengi og svarið mitt var ÆÐISLEGT.

Sparkað í mig þannig að á mér sást og enn á ný þurfti ég að leita til læknis, aftur spurð um heimilisofbeldi en þorði ekki fyrir mitt litla líf að segja satt frá því að ég vissi ef svo yrði þá færi þessi yndislegi maður á hvíta hestinum frá mér. Gat ekki hugsað mér lífið án hans.

Sorglegt finnst ykkur sem lesa þetta en svona er heimilisofbeldi í hnotskurn. Við sjáum enga leið út úr þessu, Þýðir ekki fyrir neinn að hugsa afhverju fórstu ekki en það er bara ekki svona einfalt. Búið er að brjóta einstaklinginn algjörlega niður í frumeindir, búið að segja mörg þúsund sinnum við okkur að séum ljótar, heimskar, engin sem vill elska okkur ef við förum frá þeim.

Síðan kemur góði maðurinn aftur gerir allt fyrir mann, lætur manni líða eins og engin sé eins og við og hann var bara þreyttur, svangur eða einhver í vinnunni var að gera honum lífið leitt.

Elsku þið, verið til staðar fyrir þá sem verða fyrir svona, ekki dæma, hlustið og ekki koma með einhverja töfralausn hún virkar ekki á okkur.

Að meðaltali fer hver kona 5 sinnum aftur til ofbeldismannsins.

1 af hverjum 4 konum verða fyrir ofbeldi af hendi eiginmanns, sambýlismanns eða kærasta og hvað segir þetta okkur. Jú við erum í felum því að dómstóll götunnar er svo grimmur.

Meira síðar.

Konan sem lifði af heimilisofbeldi.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband